Tilhugsunin um að vinna heima og vera meira með fjölskyldunni hljómar fýsilega og mörgum
hefur á einhverjum tímapunkti dreymt um það. En ef verkefnin verða of mörg er líklegra að við
náum ekki að sinna öllu eins og skyldi. Margir kannast við að hafa þurft að skila af sér verkefni
en á sama tíma kalla börnin, hundurinn geltir og þurrkarinn lætur vita að hann sé búinn. Ef við
erum að sinna of mörgum verkefnum í of langan tíma er líklegt að niðurstaðan verði sú að við
verðum ekki besta útgáfan af okkur sjálfum. Of mörg verkefni á sama tíma valda streitu og ef hún
verður of mikil hefur það áhrif á afköst okkar og lífsgæði.
Ef tveir fullorðnir eru á heimilinu er mikilvægt, eða næstum því nauðsynlegt við þessar aðstæður,
að hafa vaktaskipti. Einn er á vinnuvakt, hinn á fjölskylduvakt og svo koma báðir aðilar inn í
hefðbundna fjölskyldusamveru eins og áður þegar báðir komu heim að loknum vinnudegi.
Vinnuvakt á heimili með börn heima þarf hugsanlega að vera styttri en á vinnustað og þessu þurfa
stjórnendur að sýna skilning. Ef tíminn er vel nýttur er hægt að afkasta mjög miklu á 3-4 klst. í
friði frekar en ef reynt er að gera það samhliða öðrum verkum á heimili. Á meðan þú sinnir
vinnuvakt er maki á fjölskylduvakt og takmarkar eins og hann getur að sinna vinnuvakt á meðan
en fær svo fullt svigrúm til vinnu þegar hans vinnuvakt hefst.
Ef það er möguleiki, er afar mikilvægt fyrir velferð fjölskyldunnar í þessi ástandi að sá sem þarf
að klára verkefni hafi lokað rými til þess. Því þarf fjölskyldan að fórna einhverju rými í vinnustöð
hvort sem það er skrifstofuherbergi, hjónaherbergi, geymsla, hjólhýsið fyrir utan eða hvað sem er.
Ef það er ekki mögulegt kemst maður ansi langt með góð heyrnartól. Það er líklegra að við
verðum betri foreldrar og makar ef við náum að vinna í friði í einhvern tíma og koma svo aftur til
baka og sinna skyldum okkar í fjölskyldunni.
Á krefjandi tímum þurfum við að leggja okkur fram við að gera nógu vel til þess að mæta
þörfum barna. Við þurfum að sýna þeim athygli og hlýju, huga að rútínu fyrir þau og viðeigandi
mörkum. Einnig þurfum við að muna að þau eru ekki með sama þroska og við og þurfa því
nærgætni. Þetta á líka við um unglinga. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Þetta er satt! Því
ef þú sýnir barninu þínu virðingu og kurteisi þá mun það læra það með tímanum. Ef þú sýnir því
vanvirðingu og lítið umburðarlyndi máttu reikna með að það sé það sem mun einkenna samskipti
ykkar á Covid- tímum sem og í framtíðinni.
Vöndum okkur og reynum að milda framkomu okkar og sýna hvert öðru umburðarlyndi.
Höfundur / Íris Eik Ólafsdóttir, réttarfélagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sáttamiðlari hjá
Samskiptastöðinni.