Tölum um unglinga

Já, flest höfum við verið þar, sumir eru að upplifa unglingsárin og aðrir eiga það eftir.
Unglingsárin geta verið skemmtilegur tími en jafnframt krefjandi og þá oft fyrir foreldra.
Hvað getur þú gert til að eiga í góðu sambandi við unglinginn þinn?

Það er mikilvægt að byrja snemma að skapa góð tengsl. Góð tengsl við barnið þitt eru forsenda
þess að unglingsárin fari vel. Þú getur hugsað þetta þannig að því öruggari tengsl sem þú átt við
barnið þitt, þeim mun meiri innistæðu áttu þegar unglingsárin koma.

Á unglingsárunum geta börn breyst mikið. Glaða barnið þitt sem var hugur þinn breytist að því
virðist á einni nóttu í úrilla morgunfúla górillu. Engar áhyggjur! Glaða barnið þitt er þarna enn
þótt þér finnist sem þú hafir týnt því eða þekkir það varla. Oft á tíðum er eins og þau núll-stillist
og þú þurfir að byrja aftur að kenna þeim grunninn eins og að ganga frá eftir sig, fara reglulega í
sturtu, skipta um föt, svo dæmi séu tekin.

En hvernig byggir þú upp gott samband við unglinginn?

Mundu að á þessum árum er unglingurinn að skapa sér sjálfstæði. Það er mikilvægt að gefa rými
og treysta en vera jafnframt vakandi fyrir því sem er að gerast í lífi hans/hennar. Góð tengsl við
unglinginn þinn eru forsenda þess að þú getir gripið inn í aðstæður og leiðbeint þrátt fyrir
“hnussið” sem þú færð til baka þegar þú ert að tala við hann/hana.

Eigðu gæðastundir með unglingnum. Spurðu hvað honum/henni finnst gaman, hvaða þætti
hann/hún er að horfa á núna og hvaða tónlist er í uppáhaldi þessa dagana. Eru kannski ný
áhugamál sem þú veist ekki af? Spurðu hverja hann/hún sé að umgangast og sýndu raunverulegan
áhuga og virka hlustun. Vertu forvitin(n) án þess að dæma. Stundum er gott að fara í bíltúr til að
spjalla. Margir unglingar eiga auðveldara með að opna sig við þær aðstæður. Segðu líka
unglingnum frá þínum degi eða hvað sé að gerast hjá þér. Jafnvel frá því þegar þú varst
unglingur. Það er mikilvægt að halda samtali opnu þó að unglingurinn þinn sé kannski ekki að
gefa mikið af sér. Sumir unglingar eiga erfitt með nánd en það er samt sem áður mikilvægt að
sýna hana. Við þær aðstæður getur verið gott að spyrja unglinginn þinn hvort þú megir knúsa
hann/hana.


Það koma yfirleitt alltaf upp einhver mál á unglingsárum en það sem skiptir mestu máli eru þín
viðbrögð við þeim aðstæðum.


Ef upp koma aðstæður sem valda ágreiningi er mikilvægt að þú:

  1. Haldir ró þinni (anda inn, anda út).
  2. Sýnir skilning (ég skil vel að þú hafir orðið reið (ur)…).
  3. Forðist að ásaka unglinginn eða aðra.
  4. Notir ég skilaboð eins og; ég skil ekki alveg núna, getur þú útskýrt þetta betur fyrir mér,
    ég hef tekið eftir því að…
  5. Hlustir á hvað unglingurinn þinn er að segja og notir hvatningu eins og: Getur þú sagt mér
    aðeins meira um…

Ef aðstæður verða of erfiðar er mikilvægt að leita til fagaðila. Mundu að unglingsárin eru í raun
stuttur en afar mikilvægur tími og skiptir sköpum hvernig þau þróast fyrir framtíðina og
fullorðinsárin.