Þjáist þú af þrálátri þreytu, verkjum, svefnvanda, magavandamálum eða öðrum þrálátum líkamlegum einkennum? Á þessum orðum hefst auglýsing þar sem fólki býðst að taka þátt í rannsókn Elínar Broddadóttur, hannaðri til að finna leiðir til að takast á við líkamlega verki. Elín vinnur á Samskiptastöðinni sem klínískur sálfræðingur og sinnir þar bæði ungmennum og fullorðnum en er einnig í hlutastarfi hjá Háskólanum í Reykjavík sem rannsakandi. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Oxford-háskóla og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Að minnka vanlíðan
„Við erum að þróa og árangursmeta nýja hugræna atferlismeðferð við þrálátum líkamlegum einkennum. Þessi einkenni eiga sér oft óljósa útskýringu; kannski var það slys eða sýking og einhvern veginn náði fólk sér ekki og enn aðrir vita ekkert hvaðan einkennin koma,“ segir Elín og nefnir að enn aðrir upplifi einkenni vegna vefjagigtar eða iðraólgu, sem er óljóst hvers vegna kviknar.
„Þetta er hópurinn sem við erum að einblína á, og af því engin líkamleg útskýring finnst hafa læknar takmarkaða meðferðarmöguleika. Verkjalyf eru gefin við verkjum en ekki er unnið með orsökina því hún finnst ekki,“ segir Elín.
„Fólk verður kvíðið og þunglynt yfir þessari aðstöðu að ekki finnst nein skýring, fyrir utan það að þurfa að lifa með einkennum. Meðferðin okkar snýst um að minnka þessa vanlíðan og auka virkni. Fókusinn er á andlegu hliðina með von um að fólk nái einhverri stjórn á einkennunum þannig að þau stýri ekki lífi fólks.“
Styrkur í fjöldanum
Hver rannsókn nær yfir átta vikur en fylgst var með þátttakendum í þrjá mánuði. Í hópunum fann fólk fyrir styrk í fjöldanum að sögn Elínar.
„Það var hugsunin á bak við að hafa hópa, því fólk upplifir sig svo eitt og finnst að enginn skilji það. Í hópnum hittir fólk aðra sem eru að upplifa svipaða hluti og deilir sögum sínum, sem geta þá hjálpað hinum,“ segir hún.
„Við einblínum á sex einkennagerðir; þreytu, verki, svefnvanda, meltingarfæravanda, óútskýrða brjóstverki og svima og heilaþoku,“ segir Elín, en rannsakendur vinna út frá kenningum hugrænnar atferlismeðferðar.
Nú vantar Elínu tvo nýja hópa til að halda áfram með rannsókn sína. Áhugasamir geta fundið upplýsingar á Facebook-síðu Samskiptastöðvarinnar og Facebook-síðu Heilsugæslunnar. Einnig má senda tölvupóst á elinb@ru.is.
„Fólk er byrjað að streyma til okkar en okkur vantar fleiri.“