Sem sálfræðingur og foreldri velti ég fyrir mér samskiptum í nútímaþjóðfélagi og þá sérstaklega foreldra/forráðamanna og barna. Í hraða þjóðfélagsins í dag upplifi ég að margir hafi alveg brjálað að gera í allskonar utan heimilis þegar að vinnudegi líkur eða séu að vinna á fleiri en einum vinnustað. Síðan bætist við misjafnlega tímafrekur ferðatími milli staða og oft streitan við ná á ákveðnum tíma þangað sem verið er að fara. Þegar að heim er komið þarf síðan að sinna grunnþörfum og mögulega heimalærdómi. Tími til að bara vera er oft ekki á dagskránni þar sem eitt verkefni tekur við af öðru og yfir og allt um kring eru síðan samfélagsmiðlarnir. Verkefnalistinn í huganum getur verið langur og fjarlægðin á samfélagsmiðla er stutt, það getur verið erfitt að halda jafnvægi milli þeirra þátta sem við metum eða teljum mikilvæg fyrir okkur og hvað þarf eða verður að gera í dagsins önn.
Hvernig er þitt jafnvægi sem foreldri?
Erum við foreldrar meðvituð um að gefa okkur og börnum okkar tíma í amstri dagsins? Virkilega gefa okkur tíma til að eiga meðvituð samskipti hér og nú, stoppa við, leggja símann, tölvuna, pottinn eða körfuna með óhreina tauinu meðvitað frá okkur, horfa í andlit barnsins og hlusta þegar talað er við okkur?
Gott er að muna að ungmennin okkar eru einnig í þörf fyrir virka hlustun frá foreldrum. Heyrum við spurninguna og gefum okkur augnabliks tíma til að meðtaka hvað er verið að biðja eða spyrja um? Gefum við okkur tíma til að hugsa hvernig við viljum svara og hverju viljum við svara?
Hvenær stöldruðum við síðast við sem foreldrar og hugsuðum um hvað barnið mitt hefur fallegt bros, gáfum okkur leyfi til að gleyma okkur í leik eða dansa með þeim á stofugólfinu. Hvenær áttum við síðast samtal um eitthvað annað en skyldur og gáfum okkur tíma til að minna okkur á styrkleika þeirra eins og við minnum okkur á næsta verkefni á listanum?
Æfum okkur í jafnvæginu.
Höfundur er foreldri og klínískur sálfræðingur.