Hjóna­bönd 50+: „Ekki gott ef gremjubankinn stækkar og stækkar“

Fólk upplifir sig svo eitt

Þjá­ist þú af þrálátri þreytu, verkj­um, svefn­vanda, maga­vanda­mál­um eða öðrum þrá­lát­um lík­am­leg­um ein­kenn­um? Á þess­um orðum hefst aug­lýs­ing þar sem fólki býðst að taka þátt í rann­sókn El­ín­ar Brodda­dótt­ur, hannaðri til að finna leiðir til að tak­ast á við lík­am­lega verki. Elín vinn­ur á Sam­skipta­stöðinni sem klín­ísk­ur sál­fræðing­ur og sinn­ir þar bæði ung­menn­um og full­orðnum en er einnig í hluta­starfi hjá Há­skól­an­um í Reykja­vík sem rann­sak­andi. Rann­sókn­in er unn­in í sam­starfi við Oxford-há­skóla og Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Að minnka van­líðan

„Við erum að þróa og ár­ang­urs­meta nýja hug­ræna at­ferl­is­meðferð við þrá­lát­um lík­am­leg­um ein­kenn­um. Þessi ein­kenni eiga sér oft óljósa út­skýr­ingu; kannski var það slys eða sýk­ing og ein­hvern veg­inn náði fólk sér ekki og enn aðrir vita ekk­ert hvaðan ein­kenn­in koma,“ seg­ir Elín og nefn­ir að enn aðrir upp­lifi ein­kenni vegna vefjagigt­ar eða iðra­ólgu, sem er óljóst hvers vegna kvikn­ar.

„Þetta er hóp­ur­inn sem við erum að ein­blína á, og af því eng­in lík­am­leg út­skýr­ing finnst hafa lækn­ar tak­markaða meðferðarmögu­leika. Verkjalyf eru gef­in við verkj­um en ekki er unnið með or­sök­ina því hún finnst ekki,“ seg­ir Elín.

„Fólk verður kvíðið og þung­lynt yfir þess­ari aðstöðu að ekki finnst nein skýr­ing, fyr­ir utan það að þurfa að lifa með ein­kenn­um. Meðferðin okk­ar snýst um að minnka þessa van­líðan og auka virkni. Fókus­inn er á and­legu hliðina með von um að fólk nái ein­hverri stjórn á ein­kenn­un­um þannig að þau stýri ekki lífi fólks.“

Styrk­ur í fjöld­an­um

Hver rann­sókn nær yfir átta vik­ur en fylgst var með þátt­tak­end­um í þrjá mánuði. Í hóp­un­um fann fólk fyr­ir styrk í fjöld­an­um að sögn El­ín­ar.

„Það var hugs­un­in á bak við að hafa hópa, því fólk upp­lif­ir sig svo eitt og finnst að eng­inn skilji það. Í hópn­um hitt­ir fólk aðra sem eru að upp­lifa svipaða hluti og deil­ir sög­um sín­um, sem geta þá hjálpað hinum,“ seg­ir hún.

„Við ein­blín­um á sex ein­kenna­gerðir; þreytu, verki, svefn­vanda, melt­ing­ar­færa­vanda, óút­skýrða brjóst­verki og svima og heilaþoku,“ seg­ir Elín, en rann­sak­end­ur vinna út frá kenn­ing­um hug­rænn­ar at­ferl­is­meðferðar.

Nú vant­ar El­ínu tvo nýja hópa til að halda áfram með rann­sókn sína. Áhuga­sam­ir geta fundið upp­lýs­ing­ar á Face­book-síðu Sam­skipta­stöðvar­inn­ar og Face­book-síðu Heilsu­gæsl­unn­ar. Einnig má senda tölvu­póst á el­inb@ru.is.

„Fólk er byrjað að streyma til okk­ar en okk­ur vant­ar fleiri.“

Al­menn kvíða­röskun: létt­vægt vanda­mál eða á­hyggju­efni?

Ég hef gjarnan pirrað mig á því þegar ég heyri heilbrigðisstarfsfólk og aðra ræða um almenna kvíðaröskun sem „almennan kvíða“. Orðið „almennur“ er notað léttúðlega líkt og um sé að ræða léttvægt vandamál sem þarfnast ekki sérstakrar meðhöndlunar.

Staðreyndin er hins vegar sú að helmingur fólks sem hefur einkenni sem falla undir geðgreininguna almenn kvíðaröskun (e. generalised anxiety disorder) upplifir alvarlega virkniskerðingu. Sem sagt þá hefur almenn kvíðaröskun umtalsverð áhrif á getu fólks til að sinna athöfnum daglegs lífs. Því er af og frá að um sé að ræða léttvægt vandamál.

Helstu einkenni almennrar kvíðaröskunar eru þrálátar og ágengar áhyggjur um það sem skiptir viðkomandi máli líkt og fjármál, frammistaða í vinnu/skóla, eigin heilsa sem og annarra, öryggi ástvina o.fl. Þetta eru þau viðfangsefni sem við öll höfum áhyggjur af en það sem einkennir áhyggjur í almennri kvíðaröskun er hversu ágengar og tíðar þær eru. Áhyggjunum fylgja iðulega ýmis þrálát líkamleg einkenni t.d. vöðvabólga. Líkt og aðrar kvíðaraskanir er almenn kvíðaröskun krónískt vandamál og ólíklegt er að fólk hljóti bata án viðeigandi meðferðar. Þrátt fyrir að vandinn sé algengur þá fáir með almenna kvíðaröskun viðeigandi greiningu og meðferð. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að flestir sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu vegna tilfinningavanda eru með almenna kvíðaröskun.

Ein skýring á því hvers vegna fólk með almenna kvíðaröskun fær sjaldan viðeigandi greiningu og meðferð er að margir með vandann leita sér ekki aðstoðar vegna áhyggna og kvíða, heldur frekar vegna þrálátra líkamlegra einkenna líkt og vöðvabólgu, höfuðverks, meltingatruflana, svefntruflana eða áhyggna af líkamlegri heilsu. Auk þess er það oft svo að fólk með þennan vanda þekkir lífið ekki án kvíða og áhyggja og er því ekkert að nefna það sérstaklega. Svona hefur þetta bara alltaf verið og ekkert við því að gera.

Fólk með almenna kvíðaröskun lýsir sér oft með eftirfarandi hætti: „Ég hef alltaf verið meðvirk“; „ég verð að gera allt fullkomnlega“; „ég verð alltaf að vita hvað er í gangi“; „ég höndla ekki að vera ekki með stjórn á hlutunum“; „ég er alltaf á nálum – alltaf tilbúin“.

Einnig greinir fólk frá því að það upplifi sterka ábyrgðartilfinningu. Þeim finnst það þurfa að gera allt fyrir alla og er með stöðugt samviskubit yfir því að hafa mögulega yfirsést eitthvað. Þetta gerir það að verkum að fólk á erfitt með að vera til staðar hér og nú. Hugurinn er alltaf að leita að einhverju sem gæti klikkað eða farið úrskeiðis og hvernig hægt sé að bregðast við ef illa fer. Áhyggjurnar eru til staðar stóran hluta dags, erfitt er að slíta sig frá þeim og streitukerfi líkamans er sífellt í gangi. Til lengri tíma ýfir það upp líkamleg einkenni og getur á endanum leitt til örmögnunar.

Klínískar leiðbeiningar (http://www.landspitali.is/umlandspitala/fjolmidlatorg/frettir/stok-frett/2016/03/29/Kliniskar-leidbeiningar-um-almenna-kvidroskun-og-skelfingarkvida/) mæla með hugrænni atferlismeðferð (HAM) sem fyrsta meðferðarúrræði við almennri kvíðaröskun. Mikilvægt er að sá aðili sem veitir hugræna atferlismeðferð við almennri kvíðaröskun sé sérstaklega þjálfaður í aðferðum meðferðarinnar og hafi góðan skilning og reynslu af vandanum. Hér skal getið að hugræn atferlismeðferð snýst ekki um að hugsa „jákvætt“ eða „rétt“. Fremur gengur meðferðin út á samstarf tveggja sérfræðinga, skjólstæðingsins og sálfræðingsins, sem vinna saman að því að kortleggja kvíðavandann, koma sér saman um sameiginlegan skilning á vandanum og finna nýjar leiðir til að takast á við kvíðann og áhyggjurnar.

Markmiðið í meðferð við almennri kvíðaröskun er ekki að útrýma áhyggjum eða kvíða – algjört áhyggjuleysi er ekki líklegt til árangurs. Fremur að finna nýjar leiðir til að takast á við öll þau vandamál sem lífið hefur upp á að bjóða án þess að áhyggjurnar fari að lifa sjálfstæðu lífi og fari að skemma út frá sér.

Höfundur er sálfræðingur á Samskiptastöðinni og doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.

Ertu að æfa jafn­vægið?

Sem sálfræðingur og foreldri velti ég fyrir mér samskiptum í nútímaþjóðfélagi og þá sérstaklega foreldra/forráðamanna og barna. Í hraða þjóðfélagsins í dag upplifi ég að margir hafi alveg brjálað að gera í allskonar utan heimilis þegar að vinnudegi líkur eða séu að vinna á fleiri en einum vinnustað. Síðan bætist við misjafnlega tímafrekur ferðatími milli staða og oft streitan við ná á ákveðnum tíma þangað sem verið er að fara. Þegar að heim er komið þarf síðan að sinna grunnþörfum og mögulega heimalærdómi. Tími til að bara vera er oft ekki á dagskránni þar sem eitt verkefni tekur við af öðru og yfir og allt um kring eru síðan samfélagsmiðlarnir. Verkefnalistinn í huganum getur verið langur og fjarlægðin á samfélagsmiðla er stutt, það getur verið erfitt að halda jafnvægi milli þeirra þátta sem við metum eða teljum mikilvæg fyrir okkur og hvað þarf eða verður að gera í dagsins önn.

Hvernig er þitt jafnvægi sem foreldri?

Erum við foreldrar meðvituð um að gefa okkur og börnum okkar tíma í amstri dagsins? Virkilega gefa okkur tíma til að eiga meðvituð samskipti hér og nú, stoppa við, leggja símann, tölvuna, pottinn eða körfuna með óhreina tauinu meðvitað frá okkur, horfa í andlit barnsins og hlusta þegar talað er við okkur?

Gott er að muna að ungmennin okkar eru einnig í þörf fyrir virka hlustun frá foreldrum. Heyrum við spurninguna og gefum okkur augnabliks tíma til að meðtaka hvað er verið að biðja eða spyrja um? Gefum við okkur tíma til að hugsa hvernig við viljum svara og hverju viljum við svara?

Hvenær stöldruðum við síðast við sem foreldrar og hugsuðum um hvað barnið mitt hefur fallegt bros, gáfum okkur leyfi til að gleyma okkur í leik eða dansa með þeim á stofugólfinu. Hvenær áttum við síðast samtal um eitthvað annað en skyldur og gáfum okkur tíma til að minna okkur á styrkleika þeirra eins og við minnum okkur á næsta verkefni á listanum?

Æfum okkur í jafnvæginu.

Höfundur er foreldri og klínískur sálfræðingur.

Fram­hjá­höld: Annar rannsóknarlögga en hinn í hundakofann

„Sá sem verður fyrir því að makinn heldur framhjá vill fá að skoða alla þætti málsins aftur og aftur og ítrekað og oftar en ekki fer þessi aðili í rannsóknarlögguhlutverk um tíma,“ segir Íris Eik Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi fjölskyldu- og sálfræðiþjónustunnar Samskiptastöðin.

„Sá sem varð uppvís að framhjáhaldi er má segja úti í hundakofa um tíma, þarf að þola miklar yfirheyrslur og skömm yfir því að hafa skitið upp á bak. Því fyrr sem viðkomandi þó leggur spilin á borðið og það í einlægni, því betra,“ segir Íris og bætir við:

„Því ef viljinn er fyrir hendi hjá báðum aðilum, er hægt að vinna sig í gegnum framhjáhald, jafnvel þannig að parasambandið standi sterkara uppi fyrir vikið. Það er þó alls ekki alltaf hægt og stundum er ekkert annað í stöðunni en að leiðir skilji.“

Áskorun fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira.

Í dag ætlum við að fjalla um það, hvaða áhrif framhjáhöld geta haft á fólk og leiðir til að vinna sig í gegnum slík áföll.

Gífurleg vanlíðan
Hjá Samskiptastöðinni vinna ýmsir sálfræðingar, fjölskyldufræðingar og aðrir sérfræðingar sem sérhæfa sig í málefnum fjölskyldna og para. Sjálf er Íris Eik félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur að mennt, útskrifuð frá Háskóla Íslands, auk þess að vera sáttamiðlari frá Sáttamiðlaraskólanum og með meistaragráðu í réttarfélagsráðgjöf frá HÍ og framhaldsmenntun í opinberri stjórnsýslu.

Íris segir að framhjáhaldi fylgi gífurleg vanlíðan.

„Framhjáhald er risastór lífsins viðburður og í raun áfall í sögu hvers og eins sem markar flesta fyrir lífið.“

Vanlíðanin hjá þeim sem verður fyrir framhjáhaldinu, er sérstaklega erfið.

,,Framhjáhaldið skellur á viðkomandi eins og gríðarlegt högg og oft þannig að fólki finnst einfaldlega eins og lífið í heild sinni sé að hrynja. Það er einhver stoð sem áður var brostin og þessu áfalli fylgir líka ákveðin sorg yfir því sem áður var og getur ekki orðið aftur.“

Tilfinningarnar sem viðkomandi upplifir séu líka flóknar.

„Sjálfsmynd viðkomandi bíður oft hnekki. Fólk fer að velta sér uppúr því í smáatriðum hvað það er sem hinn aðilinn sem makinn hélt framhjá með, hefur. Útlitslega eða sambandslega. Hvort kynlífið hafi verið betra með hinum aðilanum, hvað nákvæmlega var gert og svo framvegis,“ segir Íris og bætir við:

Sá sem verður fyrir framhjáhaldinu verður algjörlega heltekinn og hefur ofboðslega mikla þörf á því að ræða framhjáhaldið í þaula.

Spyrja aftur um sömu smáatriðin og vill fá að vita allt, hvað var sagt, hvernig kynlífið var, hvenær nákvæmlega hver sagði hvað eða gerði hvað og svo framvegis.“

Staðan hjá hinum aðilanum, er þveröfug.

„Því sá sem hélt framhjá langar alls ekkert að tala um framhjáhaldið, hvað þá oft og mörgum sinnum eða í smáatriðum. Oft eru það líka smáatriði sem viðkomandi langar einfaldlega alls ekkert að deila með maka sínum.“

Tortryggnin getur aukist á þessum tíma.

„Því ef hinn aðilinn, sem hélt framhjá, verður til dæmis tvísaga um eitthvað eða er óljós í svörum, getur tortryggnin aukist. Eins ef viðkomandi man ekki eitthvað alveg skýrt, til dæmis sökum ölvunar, með þeim afleiðingum að misræmi verður í svörunum þegar verið er að fara yfir framhjáhaldið aftur og aftur og aftur af þeim sem vill fá að vita allt til hlítar.“

En er þá ekki oft ójafn staðan hjá pörum sem leita til fagaðila eftir parameðferð til að vinna sig úr áfallinu?

„Jú, oft er staðan ólík því það hvernig pör eru að upplifa framhjáhaldið, getur verið svo ólíkt. Það sem öðrum aðilanum finnst ofboðslega stórt, sárt og alvarlegt, gæti hinn aðilinn jafnvel talið mun léttvægara og/eða að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu þótt eitthvað misræmi sé eða eitthvað hafi gerst en þó ekkert svo alvarlegt.“

Getur þú tekið dæmi?

„Já, segjum sem svo að par hafi átt sér sérstakt kaffihús, sem það hafi í gegnum árin alltaf komið við á þegar parið tók rúntinn á einhvern ákveðinn stað. Ef maki allt í einu tilkynnir að hafa farið með öðrum aðila af sama kyni, á þetta sama kaffihús, getur það verið stórmál fyrir þann aðila sem varð fyrir framhjáhaldinu, en hinum ekki. Eins og það sé búið að skemma þessar minningar og ákveðinn griðarstað“

Sá sem heldur framhjá
En næst er að velta fyrir sér, hvað fær aðila í parsambandi til að halda framhjá.

Íris segir skýringarnar á því geta verið afar ólíkar. Ekki síst í því flókna samfélagi sem við lifum á nú, þar sem samskipti við annað fólk til dæmis í gegnum samfélagsmiðla og fleira, hefur opnað ýmsar gáttir.

„Freistingarnar geta verið margar og víða. En í sem einföldustu mynd finnst mér framhjáhöld oftast vera tvíþætt: Einstakur atburður, sem til dæmis gerist á djamminu. Eða framhjáhald sem er mjög skipulagt og jafnvel ítrekað.“

Það hvort um ræðir, skiptir þó engu varðandi það hversu alvarlegt framhjáhaldið er sem upplifun fyrir makann.

„Áhrifin eru algjörlega þau sömu fyrir þann sem verður fyrir framhjáhaldinu. Trúnaðarbresturinn hefur orðið, einhver stoð sem áður var í lagi hefur brostið.“

En eiga framhjáhöld sér ekki aðeins stað í parsamböndunum þar sem stoðirnar voru kannski ekki nógu sterkar fyrir?

Nei ekki endilega, það er allur gangur á því. Það eru alveg aðilar sem halda framhjá mökum sínum en vita enga tilhugsun verri en að missa makann, elska engan heitar og er með framtíðarsýn sín.“

En hvers vegna heldur viðkomandi þá framhjá?

„Stundum segir fólk skýringuna vera einhvers konar spennulosun, stundum ölvun, stundum til að gera eitthvað sem fólki langar til að gera og stundum getur viðkomandi einfaldlega ekki skýrt framhjáhaldið fyrir sjálfum sér né öðrum. Segist einfaldlega upplifa sína eigin hegðun sem algjört tabú.“

En stundum er sagt um fólk, að það nánast ,,haldi framhjá með öllu sem hreyfist,“ er líklegt að aðili sem stundar það að halda framhjá, hætti því nokkurn tíma?

Ef það að halda framhjá er síendurtekin hegðun, er til dæmis ekkert ólíklegt að vinna þurfi að því með viðkomandi sérstaklega, hver skýringin er á þessari endurteknu hegðun hjá viðkomandi. Af hverju viðkomandi leyfi sér þessa hegðun þrátt fyrir að vita það hún særi og meiði aðra.“

Er sá aðili þá í meðferð hjá fagaðila einn og sér?

„Já, það getur reyndar alveg átt við um báða aðila í parsambandinu. Að til viðbótar við parameðferðina sem fólk tekur til að vinna sambandið í gegnum framhjáhald, þá sé gott fyrir annan aðilann eða jafnvel báða, að hljóta einnig aðstoð hjá öðrum fagaðila sem vinnur í einstaklingsmeðferð með viðkomandi. Annað hvort til að uppræta rót vandans eða til að hjálpa viðkomandi úr þeirri vanlíðan sem framhjáhaldinu fylgja.“

Að upplifa skömm og sektarkennd eru algengar tilfinningar hjá þeim aðila sem verður uppvís að framhjáhaldi og eru virkilega íþyngjandi.

„Það er ekki aðeins gagnvart makanum. Því flest okkar viljum við hafa þá ásýnd að við séum traustar og áræðanlegar manneskjur. Ef við verðum uppvís að því að hafa haldið framhjá maka okkar, bíður sú ásýnd hnekki.“

En hver er skilgreiningin á framhjáhaldi; þarf alltaf eitthvað að gerast líkamlega til þess að það flokkist undir framhjáhald?

„Nei alls ekki en það getur líka verið mismunandi hvað fólki finnst og þess vegna er svo mikilvægt fyrir pör að ræða um traust og trúnað snemma í sambandi. Hvað myndi særa, hvað telst trúnaðarbrestur og svo framvegis,“ segir Íris og bætir við:

„Í dag geta áskoranirnar þessu tengt verið mjög margar og kannski fleiri en áður. Hvernig upplifir maki það til dæmis ef þú ert að daðra við einhvern á internetinu af því kyni sem þú laðast að? Sumir upplifa svona daður sem mjög óviðeigandi á meðan aðrir líta á svona daður sem léttvægt. Þarna getur trúnaðarbresturinn sem annar aðilinn upplifir, skollið á viðkomandi og það mjög harkalega, á meðan hinn aðilinn upplifir ekki að neitt alvarlegt hafi gerst.“

Þá segir Íris tilfinningar eins og afbrýðisemi og fleira sem fylgt getur parsambandi vera flóknar tilfinningar.

Góðu ráðin
En næst er að velta fyrir sér, hvernig er best fyrir pör að vinna sambandið út úr framhjáhaldinu. Sé það mögulegt og viljinn til þess einlæglega fyrir hendi hjá báðum aðilum.

Er það hægt?

„Já vissulega,“ svarar Íris og bætir við:

Sambandið verður aldrei aftur alveg eins. Það er ekki hægt og í því samhengi má bera sambandið saman við tjónabíl.

Bíll sem verður fyrir tjóni, verður aldrei aftur ótjónaður bíll þótt hægt sé að gera við hann og hann virki fínt.

Það sama gerist í parsambandinu. Framhjáhald skilur eftir ör sem hverfur aldrei, en parið getur lært að lifa með þessu og lært aðferðir til að bæta sambandið.“

Áhrifin á fjölskyldulífið geta verið afar mikil, enda getur úrvinnslutíminn í kjölfar framhjáhalds verið langur.

„Það skiptir alltaf miklu máli að blanda ekki börnum inn í erjurnar en börn vita þó oft mun meira en við teljum og ekki ólíklegt að þau verði þess áskynja þegar erfið staða kemur upp í kjölfar framhjáhalds. Þá skiptir mestu að setja orð á hlutina.“

Íris nefnir dæmi:

„Til dæmis að segja við börn að mamma og pabbi elski hvort annað mjög mikið en séu að tala saman til að leysa úr ákveðnu máli. Og að mamma og pabbi elska ykkur mjög mikið og eru að reyna að leysa úr ákveðnu máli.“

Þannig séu börnin upplýst um að eitthvað sé að, án þess að blandast inn í þær aðstæður og málið sé í ferli.

„Auðvitað þurfa þessi samtöl að taka mið af aldri og þroska barna hverju sinni. En í flestum tilfellum má segja að það sem börn vilja fyrst og fremst vera fullvissuð um, er að ekkert hræðilegt er að fara að gerast. Oft ímynda þau sér jafnvel að staðan sé mun verri en hún er og þess vegna skiptir svo miklu máli að setja orð á hlutina eins fljótt og hægt er ef börn verða vör við að eitthvað sé að.“

Annað sem Íris telur mikilvægt að par átti sig á, er að úrvinnslutíminn getur tekið tíma. Sérstaklega fyrir þann aðila sem verður fyrir framhjáhaldinu.

„Þetta þýðir til dæmis að rannsóknarlögguhlutverkið sem sá aðili fer í, getur staðið yfir í dágóðan tíma. Þar sem viðkomandi hefur þörf fyrir að ræða framhjáhaldið aftur og aftur, spyrja um allt, fá að kíkja í símann hjá makanum í tíma og ótíma og þar fram eftir götunum.“

Sé vilji hjá hinum aðilanum til að vinna sambandið í gegnum framhjáhaldið, verður að ríkja skilningur á þessu.

„Þótt þetta þýði að sá aðili sé þá úti í hundakofanum um tíma. En sá sem hefur haldið framhjá, þarf að undirbúa sig undir að þurfa að lifa við þessar yfirheyrslur og gera ráð fyrir að þær vari um sinn. Eins líka að ýmiss smáatriði geti skipt mjög miklu máli. Til dæmis það hvort það sé læsing á símanum eða að makinn hafi aðgang og leyfi til að skoða símann hvenær sem er.“

En þegar maki viðurkennir ekki framhjáhald?

„Það koma oft upp aðstæður þar sem sá sem verður fyrir framhjáhaldinu, ber alla sönnunarbyrðina og fer þá þeim mun meira í rannsóknarlögguhlutverkið. Þar sem viðkomandi grunar sannleikann,“ segir Íris en bætir við: markmiðið

„Staðreyndin er hins vegar sú að við munum sannleikann betur en lygar og ef aðili hefur haldið framhjá maka sínum en vill fyrir alla muni halda í þann maka, skiptir mjög miklu máli að leggja spilin á borðið og það sem fyrst. Því annars eru allar líkur á að sá sem er í rannsóknarhlutverkinu, finni misræmi í einhverju sem sagt er eða hefur verið gert og sagt og það getur alveg myndað jafnvel verri stöðu að vinna úr.“

Íris segir líka mikilvægt fyrir hvern og einn, að horfa í eigin barm.

„Við berum alltaf ábyrgð á eigin hegðun, sem þýðir að sama hver skýringin er á framhjáhaldinu, mun framhjáhald seint teljast makanum okkar að kenna. Ekki einu sinni þótt parsambandið hafi ekki verið gott, áður en framhjáhaldið á sér stað.“

Að sama skapi, segir Íris þann sem verður fyrir framhjáhaldinu, ekki mega festast í reiðinni eða yfirheyrslunum.

„Það er eðlilegt að það að vinna úr framhjáhaldi geti tekið langan tíma og fyrir suma jafnvel lengri tíma en aðra. Á móti kemur að ef viljinn er fyrir alvöru sá að vinna parsambandið í gegnum framhjáhaldið, þá þarf sá sem verður fyrir framhjáhaldinu líka að horfast í augu við það að sleppa takinu á rannsóknarlögguhlutverkinu á einhverjum tímapunkti.“

Íris mælir með því að pör leiti sér þá aðstoðar hjá fagaðila.

„Það getur verið mjög gott fyrir pör að fá leiðbeiningar og fræðslu um það fyrirbæri sem er í gangi, hverju sinni. Til dæmis að útskýra að nú sé sá sem varð fyrir framhjáhaldinu í rannsóknarlögguhlutverkinu, að það geti verið þungbær staða fyrir hinn en til þess að traust geti byggst upp á ný, þurfi að fara í gegnum þessi stig, búa til nýjar leikreglur til dæmis um símann og fleira.“´

Á endanum sé þó farið í uppbygginguna, þar sem góð samtöl eru tekin um hvaða væntingar, viðmiðanir og fleira pör vilja hafa í sambandinu til þess að geta byggt upp traust og gott samband á ný.

„Í parameðferð lærir fólk oft að tala betur saman. Sem þýðir að við þurfum að hlusta á inn aðilann og jafnvel stundum að sammælast um að vera sammála um að vera ósammála um sumt.“

Stundum geti þetta boðað enn betri tíma en áður.

„Oft verða þessi samtöl til þess að pör ná á endanum nýrri dýpt í sín samtöl um parsambandið. Þannig að þau ekki aðeins ná að leysa úr málum heldur einnig að stuðla að meiri gæðum í sambandinu miðað við það sem áður var og svo framvegis.“

Íris segir parameðferð sem þessa, oft einkennast af því að eftir ákveðinn tíma fari pör að koma sjaldnar til meðferðaraðila.

„Tímum hjá fagaðilanum fækkar þá kannski í að vera aðeins ársfjórðungslega, síðan á hálfs árs fresti og síðan einu sinni á ári.“

Bakslag í líðan sé þó eðlilegt og því sé oft gott fyrir pör að horfa til parameðferðarinnar til lengri tíma.

Til þess að samband geti orðið gott eftir framhjáhald er mikilvægast að sá sem heldur framhjá leggi spilin á borðið, svari spurningum sem maka af heiðarleika og einlægni.

Sá sem verður fyrir framhjáhaldinu þarf smá saman að byrja að treysta hinum aðilanum án þess að vera alltaf með sönnunargögn fyrir því að viðkomandi er ekki að fara á bakvið hann.

Ef þú ert í ástarsambandi er traust ein mikilvægasta stoðin fyrir langtímasamband.

Þetta leiðir okkur að því að mikilvægasta í lífi okkar allra er að koma fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.“