Tölum um unglinga

Já, flest höfum við verið þar, sumir eru að upplifa unglingsárin og aðrir eiga það eftir.
Unglingsárin geta verið skemmtilegur tími en jafnframt krefjandi og þá oft fyrir foreldra.
Hvað getur þú gert til að eiga í góðu sambandi við unglinginn þinn?

Það er mikilvægt að byrja snemma að skapa góð tengsl. Góð tengsl við barnið þitt eru forsenda
þess að unglingsárin fari vel. Þú getur hugsað þetta þannig að því öruggari tengsl sem þú átt við
barnið þitt, þeim mun meiri innistæðu áttu þegar unglingsárin koma.

Á unglingsárunum geta börn breyst mikið. Glaða barnið þitt sem var hugur þinn breytist að því
virðist á einni nóttu í úrilla morgunfúla górillu. Engar áhyggjur! Glaða barnið þitt er þarna enn
þótt þér finnist sem þú hafir týnt því eða þekkir það varla. Oft á tíðum er eins og þau núll-stillist
og þú þurfir að byrja aftur að kenna þeim grunninn eins og að ganga frá eftir sig, fara reglulega í
sturtu, skipta um föt, svo dæmi séu tekin.

En hvernig byggir þú upp gott samband við unglinginn?

Mundu að á þessum árum er unglingurinn að skapa sér sjálfstæði. Það er mikilvægt að gefa rými
og treysta en vera jafnframt vakandi fyrir því sem er að gerast í lífi hans/hennar. Góð tengsl við
unglinginn þinn eru forsenda þess að þú getir gripið inn í aðstæður og leiðbeint þrátt fyrir
“hnussið” sem þú færð til baka þegar þú ert að tala við hann/hana.

Eigðu gæðastundir með unglingnum. Spurðu hvað honum/henni finnst gaman, hvaða þætti
hann/hún er að horfa á núna og hvaða tónlist er í uppáhaldi þessa dagana. Eru kannski ný
áhugamál sem þú veist ekki af? Spurðu hverja hann/hún sé að umgangast og sýndu raunverulegan
áhuga og virka hlustun. Vertu forvitin(n) án þess að dæma. Stundum er gott að fara í bíltúr til að
spjalla. Margir unglingar eiga auðveldara með að opna sig við þær aðstæður. Segðu líka
unglingnum frá þínum degi eða hvað sé að gerast hjá þér. Jafnvel frá því þegar þú varst
unglingur. Það er mikilvægt að halda samtali opnu þó að unglingurinn þinn sé kannski ekki að
gefa mikið af sér. Sumir unglingar eiga erfitt með nánd en það er samt sem áður mikilvægt að
sýna hana. Við þær aðstæður getur verið gott að spyrja unglinginn þinn hvort þú megir knúsa
hann/hana.


Það koma yfirleitt alltaf upp einhver mál á unglingsárum en það sem skiptir mestu máli eru þín
viðbrögð við þeim aðstæðum.


Ef upp koma aðstæður sem valda ágreiningi er mikilvægt að þú:

  1. Haldir ró þinni (anda inn, anda út).
  2. Sýnir skilning (ég skil vel að þú hafir orðið reið (ur)…).
  3. Forðist að ásaka unglinginn eða aðra.
  4. Notir ég skilaboð eins og; ég skil ekki alveg núna, getur þú útskýrt þetta betur fyrir mér,
    ég hef tekið eftir því að…
  5. Hlustir á hvað unglingurinn þinn er að segja og notir hvatningu eins og: Getur þú sagt mér
    aðeins meira um…

Ef aðstæður verða of erfiðar er mikilvægt að leita til fagaðila. Mundu að unglingsárin eru í raun
stuttur en afar mikilvægur tími og skiptir sköpum hvernig þau þróast fyrir framtíðina og
fullorðinsárin.

Vinnuvakt vs. fjölskylduvakt

Tilhugsunin um að vinna heima og vera meira með fjölskyldunni hljómar fýsilega og mörgum
hefur á einhverjum tímapunkti dreymt um það. En ef verkefnin verða of mörg er líklegra að við
náum ekki að sinna öllu eins og skyldi. Margir kannast við að hafa þurft að skila af sér verkefni
en á sama tíma kalla börnin, hundurinn geltir og þurrkarinn lætur vita að hann sé búinn. Ef við
erum að sinna of mörgum verkefnum í of langan tíma er líklegt að niðurstaðan verði sú að við
verðum ekki besta útgáfan af okkur sjálfum. Of mörg verkefni á sama tíma valda streitu og ef hún
verður of mikil hefur það áhrif á afköst okkar og lífsgæði.


Ef tveir fullorðnir eru á heimilinu er mikilvægt, eða næstum því nauðsynlegt við þessar aðstæður,
að hafa vaktaskipti. Einn er á vinnuvakt, hinn á fjölskylduvakt og svo koma báðir aðilar inn í
hefðbundna fjölskyldusamveru eins og áður þegar báðir komu heim að loknum vinnudegi.
Vinnuvakt á heimili með börn heima þarf hugsanlega að vera styttri en á vinnustað og þessu þurfa
stjórnendur að sýna skilning. Ef tíminn er vel nýttur er hægt að afkasta mjög miklu á 3-4 klst. í
friði frekar en ef reynt er að gera það samhliða öðrum verkum á heimili. Á meðan þú sinnir
vinnuvakt er maki á fjölskylduvakt og takmarkar eins og hann getur að sinna vinnuvakt á meðan
en fær svo fullt svigrúm til vinnu þegar hans vinnuvakt hefst.


Ef það er möguleiki, er afar mikilvægt fyrir velferð fjölskyldunnar í þessi ástandi að sá sem þarf
að klára verkefni hafi lokað rými til þess. Því þarf fjölskyldan að fórna einhverju rými í vinnustöð
hvort sem það er skrifstofuherbergi, hjónaherbergi, geymsla, hjólhýsið fyrir utan eða hvað sem er.
Ef það er ekki mögulegt kemst maður ansi langt með góð heyrnartól. Það er líklegra að við
verðum betri foreldrar og makar ef við náum að vinna í friði í einhvern tíma og koma svo aftur til
baka og sinna skyldum okkar í fjölskyldunni.


Á krefjandi tímum þurfum við að leggja okkur fram við að gera nógu vel til þess að mæta
þörfum barna. Við þurfum að sýna þeim athygli og hlýju, huga að rútínu fyrir þau og viðeigandi
mörkum. Einnig þurfum við að muna að þau eru ekki með sama þroska og við og þurfa því
nærgætni. Þetta á líka við um unglinga. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Þetta er satt! Því
ef þú sýnir barninu þínu virðingu og kurteisi þá mun það læra það með tímanum. Ef þú sýnir því
vanvirðingu og lítið umburðarlyndi máttu reikna með að það sé það sem mun einkenna samskipti
ykkar á Covid- tímum sem og í framtíðinni.


Vöndum okkur og reynum að milda framkomu okkar og sýna hvert öðru umburðarlyndi.

Höfundur / Íris Eik Ólafsdóttir, réttarfélagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sáttamiðlari hjá
Samskiptastöðinni.

Ég geri allt og þú ekki neitt – Algengt umkvörtunarefni hjá pörum

Þau eru mörg verkefnin sem inna þarf af hendi á hverju heimili auk þess sem hver og einn hefur
yfirleitt mikið á sinni könnu utan veggja heimilisins. Algengt umkvörtunarefni para eða hjóna er
upplifun á ójafnri verkaskiptingu á heimilinu. Annar aðilinn upplifir sig gera margt, jafnvel allt,
og hinn sé ekki að taka eins mikinn þátt. Algengt er að parið upplifi stöðu sína á afar mismunandi
hátt. Dæmi um þetta getur verið að á meðan öðrum aðilanum finnist hann þurfa að sjá um allt
upplifir hinn að það sé alveg sama hvað hann geri, það sé aldrei nógu gott. Algeng viðbrögð eru
að draga sig í hlé þegar væntingar makans til verkaskiptingar eru ekki skýrar. Á sama tíma eykst
kergjan hjá makanum og hann sýnir enn meiri reiði og pirring. Krefjandi vítahringur er kominn í
samskipti parsins og oft á fólk erfitt með að finna leiðina út úr honum. Þetta myndar
samskiptavanda og gjá í parsambandið sem skilur eftir sig erfiðar tilfinningar þar sem fólk getur
upplifað einsemd, vonleysi, vanmátt, skilningsleysi, skort á virðingu og nánd.


Það er gagnlegt fyrir öll pör að setjast niður reglulega og fara yfir stöðuna á praktískum málum,
s.s. eins og hver á að skutla og sækja börnin, hver ætli að sjá um eldamennsku, þrif og þvotta, slá
grasið, þvo bílinn, greiða reikninga, sjá um viðhald, hvernig lítur vinnuvikan út, minna á viðburði
í komandi viku s.s. æfingar, saumaklúbb og hittinga eftir vinnu. Einnig er gott að ræða líðan
hverju sinni og ef viðkomandi hefur upplifað eitthvað ósanngjarnt í vikunni að ræða það á þessum
fundum. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir pör sem glíma við samskiptavanda af einhverju tagi.
Þessir fundir eru stundum kallaðir „hjónafundir”. Þeir geta minnkað árekstra og þjálfað upp betra
samtal á milli parsins. Þá er hægt að geyma umræðuefni sem geta verið eldfim í stað þess að
skella þeim á borðið, í tíma og ótíma. Meiri líkur eru á árangursríku samtali þegar báðir aðilar
hafa tekið frá tíma og eru undir það búnir. Því skaltu núna ræða við maka þinn um hvort svona
vikulegir fundir gætu gagnast ykkur til að minnka álag og bæta samskipti ásamt því hvenær í
vikunni ykkur hentar að festa tíma til að ræða ykkar mál, bæði praktísk og persónuleg.


Gangi ykkur vel!