Einstaklingsviðtal

Stundum verðum við fyrir erfiðri lífsreynslu, eins og veikindum í fjölskyldu, atvinnuleysi, missi og sorg. Það getur verið gagnlegt að fá samtalsmeðferð þegar við erum að takast á við krefjandi áskoranir eða stöndum á einhvers konar tímamótum.  Hér er samtalið lykillinn að því að auka líkur á því að líðan batni eða að vandinn leysist.

Sálfræðimeðferð

Boðið er upp á sálfræðimeðferð fyrir börn, ungmenni og fullorðna. Sálfræðimeðferð fer yfirleitt fram í einstaklingsviðtölum. Veitt er gagnreynd meðferð við hvers kyns vanlíðan og tilfinningavanda.  Dæmi um vanda sem fólk leitar til sálfræðings með er kvíði, streituvandi, lágt sjálfsmat, prófkvíði, félagsfælni, þunglyndi, sjálfsvígshugsanir, áföll, sorg, árátta og þráhyggja, reiðistjórnun og átröskun.

Val á meðferðarnálgun fer eftir vandamálinu sem um ræðir og sérhæfingu sálfræðingsins. Sú meðferðarnálgun sem mest er notuð af sálfræðingum Samskiptastöðvarinnar er hugræn atferlismeðferð (CBT) en hún hefur mikið verið rannsökuð og er gagnreynd.

Fjölskyldumeðferð

Við bjóðum uppá stuðning við fjölskyldur sem eru að glíma við hvers kyns vanda. Við veitum gagnreynda meðferð til að takast á við og vinna úr álagi og samskiptavanda í fjölskyldum. Dæmi um ástæður þess að fólk leitar sér aðstoðar fjölskyldufræðings er vegna samskiptavanda og ágreinings, tengslavanda, andlegra og líkamlegra veikinda, áfengis- og fíknivanda, ofbeldis, áhættuhegðunar ungmenna, barnauppeldis, áfalla, sorgar og breytts fjölskyldumynsturs í kjölfar skilnaðar.

 

Helstu aðferðir:

Hugræn atferlismeðferð fyrir fjölskyldur (CBT for family)

Tengslamiðuð fjölskyldumeðferð (ABFT)

Parameðferð

Boðið er upp á para- og hjónabandsmeðferð með það að markmiði að bæta samskipti og lífsgæði. Það að vera í sambandi sem á einhvern hátt er krefjandi eða veitir ekki lífsfyllingu hefur mikil áhrif á líðan fólks. Við beitum gagnreyndum aðferðum og hjálpum pörum við að bæta samband sitt.  Flestir sem leita sér aðstoðar hafa glímt við vandann nokkuð lengi án þess að finna viðunandi lausn. Stundum eru það erfiðar aðstæður sem hafa reynt mjög á sambandið. Dæmi um ástæður þess að par eða hjón leita sér aðstoðar fjölskyldufræðings er vegna samskiptavanda og ágreinings, skort á nánd og kynlífi, trúnaðarbresti svo sem eins og framhjáhaldi, fjárhagsvanda, verkaskipting á heimili, andlegra og líkamlegra veikinda, áfengis- og fíknivanda, ofbeldis, afbrotahegðunar maka, barnauppeldis, áfalla, sorgar og breytts mynsturs eftir að hlutverk breytast s.s. eftir að börn fara að heiman.

 

Helstu aðferðir: 

Hugræn atferlismeðferð fyrir pör (CBT for couples).

Tengslamiðuð parameðferð (EFT)

Börn og ungmenni

Meðferð barna og unglinga (undir 18 ára) við tilfinninga- og hegðunarvanda. Við mælum með fjölskyldumeðferð og ráðgjöf við foreldra ef um er að ræða ung börn eða börn með hegðunarvanda. Meðferð barna er ávallt unnin í samvinnu við foreldra/forráðamenn.

Helstu aðferðir:

Hugræn atferlismeðferð (CBT)

Hugræn atferlismeðferð fyrir fjölskyldur (CBT for family)

Tengslamiðuð fjölskyldumeðferð (ABFT)

Aðstandendur

Sérhæfður stuðningur fyrir aðstandendur einstaklinga með geðrænan vanda, fötlun, langvinn veikindi, fanga og einstaklinga með fíknivanda.

Markmiðið er að veita aðstandendum skýrari sýn á þá flóknu stöðu sem fylgir því að eiga einhvern að sem glímir við vanda. Farið er í það hjálparleysi sem algengt er að aðstandendur upplifa. Kenndar eru hjálplegar leiðir til stuðnings og bjargráð fyrir aðstandendur.

 

Helstu aðferðir:

Hugræn atferlismeðferð fyrir fjölskyldur (CBT for family)

Tengslamiðuð fjölskyldumeðferð (ABFT)

Sáttamiðlun

Sáttamiðlun er aðferð til að leysa fjölskyldudeilur og skilnaðarmál þar sem tveir eða fleiri aðilar taka sjálfviljugir þátt. Með aðstoð óháðs og hlutlauss sáttamiðlara komast aðilar sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins sem þeir meta viðunandi fyrir alla í gegnum skipulagt og mótað ferli.

Sáttamiðlun fylgir yfirleitt þessu ferli:

 • Aðilar sammælast um að leysa ágreining sinn með hjálp sáttamiðlunar
 • Aðilar hittast ásamt sáttamiðlara
 • Sáttamiðlari stýrir sáttafundi
 • Sáttamiðlari er hlutlaus, óhlutdrægur og sjálfstæður
 • Sáttamiðlari stuðlar að jafnræði með aðilum og sýnir þeim virðingu
 • Aðilar útskýra hvor fyrir öðrum þeirra upplifun af vandanum eða deilunni
 • Hagsmunir og þarfir aðila eru ræddar
 • Möguleikar að lausn eru settir upp
 • Lausnin byggist upp á umræðum aðilanna
 • Komist er að samkomulagi í sameiningu
 • Allir þátttakendur eru bundnir trúnaði um það sem fram kemur í sáttamiðluninni

Sáttamiðlun lýkur annaðhvort með því að aðilar komast að samkomulagi um lausn á ágreiningi sínum eða með því að slíta sáttamiðluninni en allir aðilar sem og sáttamiðlari getur óskað eftir því að sáttamiðlunarferli sé lokið.

Greiðsla á þóknun sáttamiðlara og kostnaður í tengslum við sáttamiðlunina skiptist til helminga á milli aðila nema um annað sé samið.

Hafðu samband

Sendu okkur skilaboð

Ekki læsilegt? Skipta um texta. captcha txt