Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni.  

Nú er aðventan að ganga í garð og lítur út fyrir að jólin verði frekar skrýtin í ár. Það er óvissa um hvort við getum hitt fjölskyldumeðlimi og gert það sem við erum vön að gera á aðventunni. Það er ósköp lítið sem við getum gert í því annað en að bíða og sjá hvernig hlutirnir þróast.  Á svona tímum er mikilvægt að horfa á það sem við getum gert. Við getum til dæmis lagt okkur fram við að sýna okkar nánustu hlýju og væntumþykju með því að gefa þeim tíma og athygli. Að sýna maka og börnum í verki að við metum og elskum þau.

En hvernig sýnum við ást og umhyggju í verki?

Góð leið til þess að sýna ást og umhyggju í verki er að spyrja maka af áhuga um hvernig dagurinn hans/hennar hefur verið í dag og nota spurningar til að fylgja eftir. Að hlusta af athygli, gefa þér tíma og horfast í augu þegar barnið þitt talar um hvað gerðist á leikskólanum í dag. Að hrósa maka þínum fyrir vel unnin störf í þágu heimilisins og fjölskyldunnar. Þá er ég að tala um þegar maki þinn hefur eldað mat, gengið frá, kannski hjálpað barninu ykkar að læra og leyst verkefni vel af hendi. Það eru þessir “litlu” hlutir sem ég er að tala um sem eru alls ekki svo litlir. Hversdagsleg verkefni sem við tökum stundum sem sjálfsögðum hlut en eru það alls ekki.

Við þurfum öll að fá að vita að við erum að standa okkur vel og fá viðurkenningu.

Sköpum góðar minningar á aðventunni þar sem áhersla er á samveru með þeim sem standa okkur næst. Sýndu umhyggju í verki, notaðu hrós, faðmlag, sýndu skilning, hægðu á þér og skoðaðu hvað það er sem þú getur verið þakklát/ur fyrir í lífinu.

Nýlegar færslur
Hafðu samband

Sendu okkur skilaboð