In Fræðsla, Stjúpfjölskyldur

Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus í félagsráðgjöf við félagsráðgjafardeild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, hefur áratuga reynslu af barna- og fjölskyldumálum og segist telja sig snemma hafa fengið mjög næma tilfinningu fyrir stöðu einstæðra foreldra og þarfir barna. Hún ólst sjálf upp hjá einstæðri móður en faðir hennar lést þegar hún var tveggja ára.

 

„Ég ólst upp í skugga sorgarinnar, segi ég stundum,“ segir Sigrún. „Ég var uppátækjasöm og lausnamiðuð og leitaði mér að því annars staðar sem ég ekki fékk heima. Seinna lærði ég það í fræðunum að það er oft einkenni á börnum sem taka of snemma ábyrgð eins og ég gerði, en ég tók mjög mikla ábyrgð og ekki bara á sjálfri mér. En sorgin var líka eitt af því sem leiddi mig inn í rannsóknir um áhrif andláts foreldris á barn og ég stýrði stórri rannsókn í nokkur ár í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands.“

„Að ætla að láta hið látna foreldri falla í gleymskunnar dá er ekki bara þekkingarskortur, heldur fyrst og fremst óöryggi.“

Sigrún segir að fyrir ári síðan hafi bæði klínísk reynsla og niðurstöður framangreindrar rannsóknar átt þátt í því að að skerpa lagaákvæði um að barn eigi rétt til foreldra sinna beggja megin, þ.e. afa og ömmu og frændgarðinn, eftir andlát foreldris. „Nú má til dæmis ekki ættleiða börn nema með vitund afa og ömmu hinum megin, en því miður sjáum við það oft í svona tilfellum að skorið er á tengslin við þau þegar foreldri hefur látist. Sögurnar eru svo margar og svo átakanlegar að margir myndu ekki geta ekki getað trúað þeim,“ segir hún alvarleg á svip.

„Í mörgum tilfellum hefur barni til dæmis verið bannað að hafa mynd af látinni móður sinni, af því að barnið á að aðlagast nýju fjölskyldunni. Að ætla að láta hið látna foreldri falla í gleymskunnar dá er ekki bara þekkingarskortur, heldur fyrst og fremst óöryggi og ótti við að einhver áhrif djúpra tilfinninga og minninga séu sterkari en nýju tengslin. Það er einhvers konar misskilinn samanburður eða samkeppnishræðsla hinna fullorðnu. Og þessi börn þurfa oft og tíðum að takast á við sársauka, sektarkennd og togstreitu því þau þora ekki að tala.“

Er vonda stjúpan kannski engin flökkusaga eftir allt saman?
„Nei, ekki alveg. Þessar hugmyndir lifa enn góðu lífi en aukin fræðsla og vaxandi hlutfall stjúpfjölskyldna hefur áhrif til góðs, fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það. Ég held að það sé mikilvægt að hlusta og læra því það eru alltaf börnin sem líða fyrir þetta. Börn eru svo berskjölduð, þora ekki alltaf að segja frá og allt of lítið er um að foreldrar eigi samtöl við börnin um væntanlegar breytingar í fjölskyldu þeirra og þeim hjálpað til að skilja samhengið, tjá sig um sínar tilfinningar og sína sýn. Fullorðin manneskja sem glímir við óöryggi í sinni stöðu og lætur það bitna á barninu finnst kannski ekkert athugavert við þetta nema einhver bendi henni á það. Það er í svo mörgum aðstæðum sem þetta getur átt við og það góða er að það er hægt að beita öðrum og svo margvíslegum, góðum leiðum til að hjálpa fjölskyldum. Og það er ánægjulegt að fólk á Íslandi er farið að sækja sér ráðgjöf og stuðning í auknum mæli, bæði í sorg, áföllum og missi og í lífskrísum eins og skilnaði. En á endanum snýst þetta allt um velferð barna, tilvist þeirra og réttindi.“

Nýlegar færslur
Hafðu samband

Sendu okkur skilaboð