Foreldrar eru flestir hverjir góðir í því að taka tillit til þroska minni barna og meta hvað þau eru fær um að gera. Þegar kemur að unglingum er eðlilegt að gera meiri kröfur en það getur gleymst að unglingar eru ekki með sama þroska og fullorðið fólk. Það helsta sem greinir þar á milli er að þau eru góð í að drífa sig í eitthvað sem þeim dettur í hug að gera núna en hafa ekki endilega þroska til að taka með í reikninginn að sjá fyrir afleiðingar gjörða sinna, skipuleggja fram í tímann eða leysa úr vandamálum.
Það er alls ekki víst að það sem þú telur vera hjálplegar athugasemdir séu hjálplegar fyrir unglinginn. Það er eðlilegt að foreldrar leiðbeini börnunum sínum. En það að vera sífellt að leiðbeina og gefa ráð er ekki vænlegt til árangurs. Það mikilvægasta sem þú gerir er að sýna hlýju, hlusta, leyfa unglingnum að tala óhindrað og sýna skilning á upplifun hans. Einnig er gott að fara sparlega með samlíkingar eins og hvernig aðstæður voru þegar þú varst yngri.
