Hvenær á að grípa inn í ?
Oft eru aðstandendur óöryggir hvenær og hvernig þeir eigi að grípa inn í þegar þeir sjá að ástvinur þeirra er að veikjast eða hefur minnkað virkni óeðlilega mikið. Hafa verður í huga að inngrip aðstandenda verður alltaf að fara eftir eðli vandans og alvarleika. Mikilvægt er að einstaklingar með geðrænan vanda fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. En hugmyndir þess veika og aðstandenda til hvaða bragðs skuli taka geta verið afar mismunandi.
Áhyggjur af ástvini
Stundum upplifa aðstandendur úrræðaleysi og að þeir séu einir í baráttunni. Á sama tíma og þeir eru helteknir af ótta yfir því að ástvinur þeirra sé að veikjast, gæti veikst meira, sé í hættu og hafa áhyggjur af framtíðarhorfum. Þessar hugsanir geta orðið allsráðandi og þá er hætta á að þær fari að hafa áhrif á flesta þætti daglegs lífs fólks. Í hjálparleysinu fara aðstandendur stundum að leggja allt í sölurnar til að bjarga málunum. Það getur verið fullkomlega eðlilegt að festist í slíku mynstri en á sama tíma getur það verið ógagnlegt.
